Arg Architects - Jarðveggur
- kjag55
- Apr 14
- 3 min read
Í hverfi þar sem sífellt fleiri hús víkja fyrir stærri og nútímalegri byggingum hefur ARG arkitektum tekist að sameina sögu, náttúru og sjálfbærni í einu verki. Hönnun hússins byggir á virðingu fyrir umhverfinu og sögulegu samhengi staðarins, með áherslu á endurnýtingu efna og lágmörkun byggingarúrgangs. Eigendur hússins höfðu frumkvæði að því að varðveita það sem mögulegt var og hafa framkvæmdina vistvæna. Helstu hlutar hússins fengu að standa í upprunalegri mynd, en þakið og ýmislegt innanhúss, sem og á lóðinni, var endurnýjað.
Einn af lykilþáttum verkefnisins eru þrír sveigðir innanhússveggir. Einn þeirra er úr stáli og táknar eld; hann sveigist í kringum eldstæði í miðrými hússins og tengir bygginguna við landnámsöld, þegar stálsmíði var unnin við eld á Íslandi. Annar veggurinn er úr timbri og aðskilur sjónvarpshol hússins. Sá þriðji er svokallaður jarðveggur, búinn til með rammed earth aðferðinni.

Myndlistarmaðurinn Gísli Hrafn Magnússon hafði rannsakað rammed earth aðferðina, og þegar moka þurfti fyrir nýjum lögnum á lóðinni varð til nýtilegt efni í verkefnið. Í stað þess að fjarlægja jarðveginn sem mokað var upp, var hann fluttur nokkra metra inn í húsið og nýttur þar. Aðferðin við gerð jarðveggsins hefur verið notuð í þúsundir ára í byggingarlist um allan heim. Upprunalega hugmyndin er að nýta jarðveginn sem bygging stendur á og lágmarka þannig flutningsþörf byggingarefna. Aðferðin felst í því að þjappa rökum jarðvegi í lög innan móta þar til efnið verður þétt og burðargeta þess eykst. Þegar veggurinn þornar verður hann harður og endingargóður, svipaður steinsteypu, en án þess að krefjast orkufrekra framleiðsluferla. Jarðveggir hafa hátt þrýstiþol en minna þol gegn skerálagi og togi.

Undirbúningsferlið fyrir uppsetningu veggsins var langt. Gerðar voru prufur með jarðveginum úr garðinum og þær settar í prófun hjá Tæknisetrinu. Efnið sem notað er í jarðvegginn þarf að vera rétt blanda af sandi, leir og raka. Erfitt er að ákvarða nákvæm hlutföll, þar sem jarðvegur er mismunandi eftir staðsetningu. Því þarf sérstaka þekkingu til að meta áferð efnisins áður en því er komið fyrir í mótum. Prófunaraðferðir Tæknisetursins eru gerðar fyrir steinsteypu og hentuðu ekki fullkomlega fyrir jarðveggsprufur. Þá kom í ljós að betra væri ef mótin væru stærri og að nauðsynlegt væri að bjóða upp á fleiri prófunaraðferðir á Íslandi.
Jarðveggir eru ekki aðeins umhverfisvænir heldur einnig hagnýtir. Þeir geyma hita á daginn og skila honum aftur út í rýmið þegar kólnar, sem bætir orkunýtni hússins. Að auki eru þeir ryk- og eiturefnalausir, henta vel til rakastjórnunar og veita góða hljóðeinangrun. Þeir stuðla að minni efnisflutningi og minnka kolefnisspor byggingarinnar.

Líffræðilegur fjölbreytileiki
Þak hússins var illa farið og þurfti að fjarlægja stóran hluta þess. Við framkvæmdir á þakinu kom í ljós búsvæði býflugna og fugla. Þar fundust bæði humlubú og geitungabú, sem og hreiður skógarþrasta og maríuerla. Þetta leiddi til ákvörðunar, sem tekin var í samráði við fuglafræðing, um að lengja burðarbita þaksins í svefnálmu hússins og ganga frá þakskyggni þannig að það viðhaldi og styðji við líffræðilega fjölbreytni á svæðinu.

Annað
Jarðvegurinn sem mokaður var upp við lagnaframkvæmdir og ekki nýttist í jarðvegginn var notaður til að móta veggi og hleðslur á lóðinni. Garðurinn er látinn vera villtur og ekki sleginn, sem styður enn frekar við líffræðilega fjölbreytni.
Fleiri hringrásarlausnir voru nýttar við endurgerð hússins. Hellusteinar af lóð hússins voru endurnýttir í hönnun setusvæðis í kringum arininn. Þetta eru góð dæmi um markvissa endurnýtingu byggingarefna.
Upplýsingar um rammed earth: https://rammedearthconsulting.com/
Comentarios